Skip to main content
European School Education Platform
Tutorials

Hvernig má nýta gervigreind í skólastarfi?

Vegna tæknilegrar framþróunar er gervigreind sífellt að verða snarari þáttur í daglegu lífi, þ. á m. kennslu og námi. Hvernig myndi hin „gervigreinda“ kennslustofa líta út? Í þessari grein er fjallað stuttlega um hvað gervigreind er auk þess hvernig unnt er að innleiða hana smám saman í skólastarfi.

Hvað er gervigreind?

Snúið getur verið að svara þessari spurningu, enda eru rannsakendur ekki á eitt sáttir um skilgreiningu hugtaksins gervigreind. Hægt er að skilgreina hana sem getu tölvukerfis til að leysa af hendi verkefni sem krefjast einhvers konar greindar og eru yfirleitt tengd mannshuganum, svo sem túlkunar og úrvinnslu upplýsinga, náms, rökleiðslu, lausnaleitar, spágerðar, ákvarðanatöku og stundum sköpunar. En af hverju er svona erfitt að skilgreina gervigreind? Eins og sérfræðingahópurinn High Level Expert Group on AI hefur bent á vísar hugtakið gervigreind með skýrum hætti til hugtaksins greindar. Vegna þess að greind (bæði véla og mannfólks) er óljóst hugtak notast rannsakendur á sviði gervigreindar einkum við hugtakið „rökræna“ (e. rationality), en átt er við getuna til að velja bestu leiðina að tilteknu markmiði, að teknu tilliti til þeirra aðfanga sem tiltæk eru og tiltekinna viðmiða.

Hvernig má nýta gervigreind í kennslu og námi?

Gervigreind er nú þegar nýtt með ýmsum hætti sem lofar góðu um hvernig hún gæti umbylt kennslu og námi á komandi áratugum. Hún getur hraðað framþróun á sviði einstaklingsmiðaðs náms, séð nemendum fyrir símati og stöðugri endurgjöf og hjálpað við greiningu námsferlisins með hætti sem gerir kleift að laga það að þörfum viðkomandi nemanda í rauntíma (UNESCO, 2020). Fyrirliggjandi reynsla lofar einnig mjög góðu um að gervigreind geti stutt nemendur með sérþarfir með því að laga námið að mismunandi getu þeirra. Á meðal annarra sviða þar sem gervigreind gæti nýst vel eru mat á nýrri hæfni og spágreiningar sem miða að því að draga úr brottfalli úr námi (OECD) auk bættrar hugvitundar (e. metacognition) og skilvirkara samvinnunáms. Gervigreind getur stutt við samvinnunám með skilvirkari hópasamsetningu, hópstýringu sem byggir á sérfræðikunnáttu, spjallmennum (e. virtual agents eða chatbots) og umræðustýringu, auk þess að gagnast við skipun í hópa sem henta best í tiltekin samstarfsverkefni (Luckin, Holmes).

Á þessari mynd má sjá nokkrar lausnir sem gervigreind hefur upp á að bjóða í skólastarfi:

AI in Education

Byggt á greininni „Hvernig gervigreind er að umbylta námi" | e27

Hvernig væri hægt að innleiða gervigreind í kennslustofunni?

Um er að ræða þrjár meginnálganir þegar kemur að innleiðingu gervigreindar í kennslustofunni, allt eftir námsmarkmiðum:

  1. Nám með gervigreind, þ.e. að innleiða gervigreindartækni til að bæta nám og kennslu. Þótt gervigreindartól og -tækni séu aðallega þróuð fyrir atvinnulífið standa þegar til boða ýmis gervigreindartól fyrir kennara sem vilja nýta þau. Dæmi um tól sem nota má í STEM-fögum eru PhotoMath, ókeypis app með stærðfræðikennslu, og Seek by iNaturalist, app sem hjálpar nemendum að læra að þekkja lífverutegundir af ljósmyndum. Í tungumálanámi er hægt að nota Verse by Verse, sem býður nemendum upp á að skrifa ljóð með hjálp gervigreindar og fræðast um bandarísk ljóðskáld, og appið Duolingo til að læra erlend tungumál. Í samfélags- og listagreinum er hægt að nota Newspaper Navigator, sem er tól til að leita í milljónum dagblaðaljósmynda, og MuseNet, sem er app til að fræðast um og búa til tónlist. Tól eins og Socratic og Brainlyer hægt að nota í öllum fögum.
  2. Að læra um gervigreind, þ.e. öðlast nýja færni sem gagnast í lífi og starfi í heimi gervigreindar. Til að leysa sköpunarkraft gervigreindar úr læðingi og takast á við áskoranir í heimi gervigreindar þurfa nemendur að búa yfir hæfni í reiknihugsun (e. computational thinking) og verkefnalausn sem og forritun/kóðun og gagnalæsi. Code Week býður kennurum upp á ýmsar leiðir í kennslu og tilhögun náms.
  3. Að læra á gervigreind, þ.e. beita hæfni á sviði gervigreindar til að nota hana og búa til ný gervigreindartól og -tækni. Ein leið til að læra að nota gervigreindarkerfi á skilvirkan og viðeigandi hátt er að taka námskeið í grundvallaratriðum gervigreindar fyrir skóla (AI Basics for Schools MOOC).

Tækifæri og áskoranir í tengslum við gervigreind

Undanfarinn áratug hafa orðið stórstígar framfarir á sviði gervigreindartækni, sem koma okkur sífellt á óvart. Möguleikarnir virðast óþrjótandi. Í þessari vefmálstofu fjallar Marco Neves, ráðgjafi á sviði tæknilausna og gervigreindar á menntasviðinu og verkefnastjóri hjá EdTech, bæði um þann ávinning og þær áskoranir sem gervigreind getur haft í för með sér.

Eruð þið tilbúin fyrir gervigreindarbyltinguna?

Additional information