Skip to main content
European School Education Platform
Survey

Könnun um nýsköpunar- og frumkvöðlahæfni - niðurstöður

Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að leggja ætti meiri áherslu á nýsköpunar- og frumkvöðlahæfni í skólum. Aðgerðir utan skóla virðist vera áhrifarík leið til að móta hæfni nemenda. Hins vegar greindu kennarar frá erfiðleikum með aðgengi og samstarf við samtök, félög og fyrirtæki.

Frumkvöðlahæfni snýst um að koma auga á og grípa tækifæri, og eins að skipuleggja og hafa umsjón með menningarlegum, félagslegum og fjárhagslegum ferlum á skapandi hátt. Þetta er margþætt hæfni sem snýst um að þekkja samhengi og tækifæri, siðferðileg grundvallaratriði og sjálfsvitund. Að auki felur hún í sér sköpunargáfu (ímyndunarafl, gagnrýna ígrundun, lausn vandamála), hæfni í samskiptum, virkjun úrræða og að takast á við óvissu, tvíræðni og áhættu, ásamt viðhorfum um sjálfsvirkni, hvatningu og þrautseigju og að meta hugmyndir annarra. Á sama hátt vísar nýsköpunarhæfni til blöndu af sérstökum persónulegum einkennum, félagslegri færni, efnisþekkingu, framtíðarmiðuðu hugarfari, skapandi hugsun og færni í verkefnastjórnun og -gerð. Frumkvöðlakennsla miðar að því að móta kunnáttu og hugarfar nemenda til að breyta skapandi hugmyndum í frumkvöðlaaðgerð. Þetta kallar á samstarf við samtök utan skólans, og eflir þannig reynslunám.

Markmið þessarar könnunar var að meta viðhorf til nýsköpunar- og frumkvöðlahæfni. Hún var opin á School Education Gateway frá 27. janúar til 20. mars 2022 og voru svarendur 121 frá 33 löndum, 79% af þeim voru kennarar eða skólastjórnendur.


Results (N = 121)

1.  Þegar þú hugsar um skólann þinn eða skóla sem þú þekkir, að hvaða leyti ertu sammála eftirfarandi fullyrðingum?

Graph 1

Mjög ósammála
Ósammála
Hlutlaus
Sammála
Mjög sammála
Ég veit það ekki

Meirihluti svarenda greindi frá því að nýsköpunar- og frumkvöðlahæfni sé samþætt í skólanámskrá þeirra, sérstaklega með þverfaglegri nálgun (55%) og í minna mæli sem sérgrein (36%).

Þar að auki voru 56% svarenda sammála eða mjög sammála því að skólinn þeirra bjóði upp á verkefni til eflingar á bæði nýsköpunar- og frumkvöðlahæfni og 41% sagði að sérstakur kennari væri til staðar sem bæri ábyrgð á þessu sviði.

Hins vegar sögðu 79% að leggja ætti meiri áherslu á þessa hæfni á skólastigi og að sama skapi sögðu 68% svarenda að þessari hæfni ætti ekki að vera aflað aðallega utan skóla.

2.  Hvað af eftirtöldu er aðgengilegast í skólum í landinu þínu til að styðja við nýsköpun og frumkvæði? Þú getur valið allt að þrjá valkosti.

Graph 2

Hvað varðar aðgengilegustu úrræðin til að styðja við nýsköpun og frumkvöðlastarf þvert á skóla þá völdu 52% svarenda prentað eða netkennsluefni, síðan tengslanet kennara (44%) og stutt netnámskeið og vinnustofur fyrir kennara (41%).

Hóflegur stuðningur var við innlend verkefni og keppnir, kennsluleiðbeiningar og samstarf við samtök, félög og fyrirtæki (á bilinu 27% til 36%). Óaðgengilegustu úrræðin voru talin vera Evrópukeppnir og herferðir með 19% og sérfræðimiðstöðvar með 12%.

3. Að hve miklu leyti telur þú eftirfarandi aðferðir árangursríkar við kennslu í nýsköpunar- og frumkvöðlahæfni?

Graph 3

Afar árangursríkar
Árangursríkar
Hlutlaus
Ekki það árangursríkar
Alls ekki árangursríkar
Ég veit það ekki

Allar aðferðir sem taldar voru upp voru álitnar árangursríkar af meirihluta svarenda.

Miðað við svörin eru þær áhrifaríkustu meðal annars aðgerðir utan skóla sem tengja nemendur við nærsamfélagið eða fyrirtæki (91%), nýsköpunarstofur þar sem nemendur taka þátt í rannsóknarverkefnum til að leysa nútímaáskoranir (91%) og alþjóðleg verkefni (90%).

Rétt á eftir þessum aðferðum eru að bjóða frumkvöðlum inn í skólastofuna til að deila reynslu sinni (88%), þátttaka nemenda í viðeigandi keppnum (86%) og eftirlíkingar- og örfyrirtæki (84%).

4.  Að hve miklu leyti starfar skólinn þinn með eftirfarandi aðilum til að móta nýsköpunar- og frumkvöðlahæfni nemenda?

Graph 4

Að afar miklu leyti
Að miklu leyti
Að einhverju leyti
Að litlu leyti
Alls ekki

Að koma á fót skólasamstarfi við utanaðkomandi stofnanir getur skipt sköpum til að þróa nýsköpunar- og frumkvöðlahæfni nemenda.

Algengasta samstarfið var við svæðisbundna/innlenda opinbera þjónustu og samfélagsleg samtök (bæði 37%), næst á eftir komu sveitarfélög/stofnanir og lista- og menningarsamtök (bæði 36%).

Sálfélagsleg aðstaða, staðbundnir vinnuveitendur og foreldrafélög fengu hóflegt svarhlutfall, frá 34% til 31%.

Svæðisbundin/innlend fyrirtæki, góðgerðarsamtök og verkalýðsfélög fengu lægsta svarhlutfallið þegar það kom að samstarfi.

Niðurstaða

Niðurstöður könnunarinnar, byggðar á tiltölulega lágu svarhlutfalli, benda til þess að nýsköpunar- og frumkvöðlahæfni sé hluti af skólanámskrá, aðallega með þverfaglegum aðferðum og skólasamstarfi sem kennarar innleiða, en um það bil átta af hverjum tíu svarendum segja að leggja ætti meiri áherslu á báða liði á skólastigi.

Áhrifaríkustu vinnubrögðin til að þróa nýsköpunar- og frumkvöðlahæfni nemenda voru talin vera aðgerðir utan skóla sem tengir nemendur við nærsamfélagið/fyrirtækin, nýsköpunarstofur þar sem nemendur taka þátt í rannsóknarverkefnum og alþjóðleg verkefni.

Hvað úrræði varðar sögðu kennarar að þeir hefðu greiðari aðgang að kennsluefni, tengslanetum kennara og starfsþróunarmöguleikum en að samtökum/félögum/fyrirtækjum, Evrópukeppnum/herferðum og sérfræðimiðstöðvum. Í þessu sambandi gáfu kennarar til kynna að þeir hefðu ekki átt eins mikið samstarf við svæðisbundin og innlend fyrirtæki, góðgerðasamtök og verkalýðsfélög.

Hægt er að finna frekari upplýsingar um frumkvöðlamenntun á sérstakri síðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og sjá frekari gögn í þessari Eurydice-skýrslu frá 2016. Einnig má fræðast meira um verkfæri, aðferðir og góða starfshætti í Frumkvöðlaskólanum og skýrslunni um kennara sem mikilvægan árangursþátt í frumkvöðlamenntun.

Atriðaskrá: Hlutverk svarenda

Graph 5

Additional information